Listahátíð í Reykjavík og HljóðX hafa gert með sér samstarfssamning vegna Listahátíðar í Reykjavík árin 2016 og 2018.
HljóðX verður samstarfsaðili hátíðarinnar og aðalráðgjafi hennar í tæknilegri útfærslu sviðsverka á samningstímanum. Þá mun HljóðX annast uppsetningu á völdum viðburðum hátíðarinnar.
Listahátíð í Reykjavík er þverfagleg listahátíð með áherslu á nýsköpun. Hún fer fram í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum um alla borg og teygir sig ár hvert út fyrir borgarmörkin. Listahátíð í Reykjavík hefur verið leiðandi afl í íslensku menningarlífi frá stofnun árið 1970. Mikil listræn fjölbreytni er einkenni hennar.
Listahátíð vinnur með og leiðir saman opinberar stofnanir og sjálfstæða hópa listamanna á öllum sviðum menningarlífsins. Hún hefur beint frumkvæði að fjölda verkefna, í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum, er alþjóðleg listahátíð sem starfar á breiðum vettvangi. Listahátíð hefur starfað með eða flutt verk eftir mikinn fjölda listamanna.
HljóðX er leiðandi fyrirtæki á Íslandi í innflutningi, sölu og útleigu á ljósa, hljóð og sviðsbúnaði. Búnaðurinn sem HljóðX flytur inn og selur eða leigir út er allur af nýjustu og bestu gerð. Hljóðbúnaður frá framúarskarandi framleiðendum eins og JBL, Soundcraft og AKG, ljósabúnaður frá t.d. Clay Paky og Chauvet og sviðsbúnaður frá Stage line og Staging concepts. Markmið HljóðX eru að bjóða viðskiptavinum sínum upp á afburða góð tæki og þjónustu sem eru hagkvæm og örugg.
Að sögn Ingólfs Arnarsonar framkvæmdastjóra HljóðX er samningurinn við Listahátíð í Reykjavík mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið og þá vöru og þjónustu sem það býður upp á. Hann segir það mikinn heiður fyrir HljóðX að vera einn af samtarfsaðilum hátíðar sem hefur fært til Íslands hið besta af hinu alþjóðlega sviði lista frá árinu 1970.
Listahátíð í Reykjavík hófst 21. maí og HljóðX hafði veg og vanda við að umbreyta Brim húsinu á Miðbakka í danssvið en þar fór fram opnunarsviðsverk Listahátíðar að kvöldi setningardagsins, þegar fimmtán Flexing dansarar frá Brooklyn og Manchester koma saman og sýndu danstakta sem aldrei fyrr höfðu sést hér á landi. Myndirnar tók Valgarður Gíslason 





