
Nú heitum við einfaldlega HljóðX – og sagan lifir með okkur
Í meira en 80 ár hefur nafnið Rín verið órjúfanlega tengt íslensku tónlistarlífi. Rín var lengst af til húsa á Frakkarstíg en síðar í Brautarholti og þar tók HljóðX við rekstrinum af Magnúsi Eiríkssyni. Verslunin sameinaðist þá verslun HljóðX á Grensásveginum en vorið 2025 fluttum við hana í Hafnarfjörðinn. Nú stígum við næsta skref á þessari vegferð og héðan í frá verður allur rekstur okkar sameinaður undir einu nafni, á einum stað – HljóðX, Drangahrauni 5 í Hafnarfirði.
Við berum djúpa virðingu fyrir sögu og arfleifð Rínar, sem hefur átt stóran þátt í að styðja og efla tónlistarmenningu á Íslandi í áratugi. Í gegnum tíðina hafa HljóðX og Rín byggt upp öflugt vöruframboð þar sem vörumerki á borð við Roland – sem í fyrra fagnaði 50 ára afmæli – hefur verið einn af hornsteinunum. Þá má einnig nefna heimsþekkt merki eins og Boss, JBL, AKG og fleiri, sem við hjá HljóðX leggjum áfram sérstaka áherslu á í þjónustu okkar við tónlistarfólk, kennara, nemendur og tæknifólk.
Þótt nafnið Rín hverfi nú formlega úr daglegri notkun, lifa gildi þess og tengsl við tónlistarheiminn áfram í starfi okkar.
Frá og með þessari breytingu skiptist starfsemi HljóðX í þrjár skýrar einingar:
• Verslun – hljóðfæri, fylgihlutir, hljóðbúnaður og tækni
• Lausnir – uppsetning, ráðgjöf og sérsniðnar tæknilausnir
• Leiga – leiga á hljóð-, ljós- og sviðsbúnaði fyrir litla, stóra og risastóra viðburði
Við hlökkum til að halda áfram að þjónusta viðskiptavini okkar af sama metnaði og áður – nú undir einföldu nafni og með enn skýrari sýn og stefnu.